Everton vs. QPR

 Á morgun kl. 14:00 hefst fjörið fyrir alvöru: Tímabilið (okkar) í Úrvalsdeildinni ensku loksins að hefjast, viku seinna en áætlað var. Everton notaði þessa aukaviku til að fljúga til Írlands og leika vináttuleik við Bohemians. Leikurinn endaði með jafntefli þar sem Beckford kom Everton yfir 0-1 á 9. mínútu en Bohemians jöfnuðu gegn gangi leiksins. Everton fékk mörg tækifæri til að komast aftur yfir en markvörður Bohemians hélt þeim á floti.

Úrslitin skiptu þó litlu máli og öllu mikilvægara að Arteta náði að spilaði leikinn (sjá mynd) og virðist orðinn nokkuð góður af meiðslum. Jafnframt komu allir heilir frá leiknum og því aðeins Coleman sem er frá (meiddur á ökkla) sem og Bily (í banni). Reyndar er ekki víst með Gueye heldur, en hann var víst á hækjum allavega part af síðari hluta undirbúningstímabilsins, eftir að hafa komið nokkuð sterkur inn.

Hjá QPR er Clint Hill í banni eftir að hafa fengið rautt í fyrsta leik og Kieron Dyer, Jamie Mackie og Rob Hulse meiddir.

Leikurinn við QPR er fyrsti leikur milli þessara liða í uþb. 16 ár en tölfræðin lítu ágætlega út, S:J:T (sigrar, jafntefli töp) gegn þeim eru 47% : 22% : 31% (en á heimavelli okkar 63% : 18% : 18%). Síðustu 8 Úrvalsdeildarleikir milli liðanna líta þó ekki jafn vel út: 2:1:5 (leikir) en 16 ár síðan það var, eins og komið var inn á. Upphafsleikir tímabilsins hafa jafnframt reglulega reynst okkur strembnir og QPR eru sýnd veiði en ekki gefin. Þeir verða staðráðnir í að láta ekki taka sig í bakaríið aftur eftir 0-4 rúst í upphafsleik þeirra á heimavelli í síðustu viku gegn Bolton. Nú er mikilvægt að halda einbeitingunni og klára leikinn með þremur stigum.

Af leikmannamálum er ekki mikið að frétta, annað en að Moyes staðfesti að hafa fengið nokkur lág tilboð í Beckford, nú síðast 2M frá Leicester sem var snarlega hafnað, enda hann mun meira virði. Það lak svo út viðtal við Bill Kenwright þar sem hann játaði að bankinn er með hann í spennitreyju og Everton verður að selja til að kaupa, en það svo sem staðfestir bara það sem við vissum. Og talandi um að selja: Yobo er jafnframt sagður vera loksins að klára félagaskipti til Fenerbache, en enn er beðið formlegrar staðfestingar á því.

 

Comments are closed.