Everton vs. Blackburn

Everton tekur á móti Blackburn á Goodison Park á morgun (lau) kl. 14:00 og ætla nokkrir að hittast á Replay barnum á Grensásvegi til að horfa á leikinn. Blackburn unnu okkur á heimavelli 1-0 í upphafsleik tímabilsins en við höfum verið í fantaformi nýlega því við höfum ekki tapað í 8 leikjum í röð í deildinni (erum í öðru sæti formtöflunnar) á meðan Blackburn hefur ekki náð að vinna í jafn mörkum leikjum (eða síðan í janúar) og sitja í þriðja neðsta sæti formtöflunnar (og í 15. sæti í deild). Þeir eru nú í bullandi fallbaráttu eftir að nýir eigendur ráku gamla þjálfarann (Sam Allardyce), sem var annars á sæmilegu róli í deildinni. Samkvæmt tölfræðinni vinnum við yfirleitt 56% leikjanna við þá á heimavelli og gerum jafntefli í 20% leikja en það eru aðeins sex leikir eftir af tímabilinu og mikilvægt (fyrir bæði lið) að reyna að klóra sig upp töfluna.

Meiddir hjá okkur eru Arteta, Fellaini, Saha og Baxter og líka spurningarmerki við Cahill, Rodwell og Coleman. Hjá þeim er Nzonzi í banni og Andrews, Grella og Nelsen meiddir (og mögulega Hoilett líka).

Rodwell var sagður vonast til að vera tilbúinn f. leikinn við Blackburn og Arteta upphaflega einnig, en myndir sem voru teknar af lærinu á Arteta sýndu að hann þyrfti líklega viku í viðbót. Hann er nú búinn að vera frá í 5 vikur af þeim 4-6 vikum sem upphaflega var spáð.

En að öllu betri fréttum varðandi samninga og meiðsli þá sagðist Fellaini vilja framlengja samninginn sinn. Hann lét hafa það eftir sér að starfsmenn Everton hugsi vel um sig og hann eigi gott samstarf við Moyes. Uppskurðurinn tókst jafnframt vel og hann fór úr gipsinu á mánudaginn þannig að nú hefst endurhæfingin. Hann er að vona að vera klár fyrir lok tímabils.

Tim Cahill lýsti því svo yfir að hann ætli ekki að spila vináttulandsleiki með Ástralíu yfir sumarið, til að koma ferskur inn næsta tímabil og einbeita sér að því að standa sig vel með Everton. Hann er 31 árs og þetta yrði í fyrsta skipti í 7 ár sem hann tekur sér frí frá fótboltanum yfir sumarið.

Svo hefur Preston framlengt samning sinn við markvörð okkar, Ian Turner, til loka tímabils.

Og svo rúsínan í pylsuendanum áður en við ræðum um leikmannasamninga/væntanleg kaup: Everton akademían hefur verið þekkt fyrir það að unga út stórefnilegum sóknarmönnum undanfarið og hér gefur að líta leikmanninn Hallam Hope sem sumir telja að geti orðið næsti Rooney (greinin vísar jafnframt í vídeó af glæsilegum mörkum hans í nýliðnum landsleik Englendinga, sem skoða má hér).

En að lokum er hér yfirlit yfir hvaða leikmenn Everton hefur verið orðað við í vikunni: Youssef El-Arabi 24 ára Morokkómaður og sóknarmaður hjá Caen segist vilja fara frá félaginu til Englands/Spánar og hefur Everton verið nefnt til sögunnar. Hljómar eins og hann geti verið með lausan samning, án þess að það sé tekið fram. Hann er þriðji markahæstur í frönsku deildinni (15 mörk í 30 leikjum). Serbíski miðjumaðurinn hjá Fiorentina, Adem Ljajic (19 ára), var einnig sagður hafa Everton á höttunum eftir sér. Verður að teljast ólíklegt ef rétt er að hann kosti um 8M punda.

 

Comments are closed.